top of page

Nemendaverndarráð

Skólastjóri grunnskóla getur stofnað nemendaverndarráð til eins árs í senn. Hlutverk nemendaverndarráðs er að samræma skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur varðandi heilsugæslu, námsráðgjöf og sérfræðiþjónustu, vera skólastjóra til aðstoðar við gerð og framkvæmd áætlana um sérstaka aðstoð við nemendur.

Í nemendaverndarráði geta átt sæti skólastjóri eða aðstoðarskólastjóri, umsjónarmaður sérkennslu ef hann starfar við skólann, fulltrúi heilsugæslu, þar sem því verður við komið, fulltrúi sérfræðiþjónustu skóla, þar sem því verður við komið og námsráðgjafi skólans, sé hann starfandi.

8BEA5F5A-15F4-4F92-BE06-15B417BECC04.jpeg

Skólastjóri eða aðstoðarskólastjóri er formaður nemendaverndarráðs.

Starfsemi ráðanna tekur mið af aðstæðum á hverjum stað. Þar sem 10 kennarar eða fleiri eru starfandi auk skólastjóra er æskilegt að slíkt ráð sé starfandi.

Þurfi nemandi að mati umsjónarkennara, á sérstakri aðstoð að halda vegna fötlunar, sjúkdóms eða námslegra, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika, skal umsjónarkennari vísa málinu skriflega til skólastjóra sem getur lagt málið fyrir nemendaverndarráð.

 Nemendaverndarráð fjallar um sérstök úrræði varðandi einstaka nemendur sem lögð hafa verið fyrir ráðið. Ráðið metur hvaða viðbótarupplýsinga er þörf og boðar á sinn fund umsjónarkennara og forráðamenn svo og aðra aðila sem tengjast máli nemandans ef þörf krefur.

Þegar ákvörðun hefur verið tekin um nauðsynlegar ráðstafanir, getur skólastjóri falið ákveðnum aðila/aðilum innan ráðsins að fylgja málinu eftir ef nauðsyn krefur.

Nemendaverndarráð kemur saman a.m.k. einu sinni í mánuði. Fundir skulu færðir til bókar. Fara skal með persónulegar upplýsingar samkvæmt reglum um meðferð trúnaðargagna (reglugerð um nemendaverndarráð í grunnskólum).

Vísun mála til nemendaverndarráðs

Fái nemandi ekki fullnægjandi aðstoð vegna fötlunar, sjúkdóms eða námslegra, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika skal umsjónarkennari vísa málinu skriflega til nemendaverndarráðs.

Fulltrúar í nemendaverndarráði geta haft frumkvæði að því að mál einstakra nemenda séu tekin upp í ráðinu.

Starfsfólk skóla, foreldrar, nemendur og fulltrúar sérfræðiþjónustu skólans geta óskað eftir því við skólastjóra eða fulltrúa hans í nemendaverndarráði að mál einstakra nemenda eða nemendahópa verði tekin fyrir í ráðinu.

Ávallt skal upplýsa foreldra um að máli barna þeirra sé formlega vísað til skólastjóra eða nemendaverndarráðs og leita eftir samstarfi við foreldra um lausn mála eftir því sem framast er kostur.

Nemendaverndarráð skal taka fyrir málefni sem vísað er til ráðsins eins fljótt og auðið er.

20220907_114913_edited_edited.jpg
bottom of page