UPPBYGGINGARSTEFNAN

Upphafsmaður Uppeldi til ábyrgðar- Uppbygging sjálfsaga (Restitution) er Diane Gossen og kemur stefnan frá Kanada. Aðferðina þróaði Gossen út frá hugmyndum dr. William Glasser um Gæðaskólann og sjálfstjórnarkenningu hans. Þá vísar Gossen jafnframt í rannsóknir á heilstarfsemi og  í hugmyndir Eric Jensen um mælanleg neikvæð áhrif ógnunar á námsgetu. Þá styðja rannsóknir Alfie Kohn einnig við aðferðir Gossen, en hann hefur rannsakað neikvæð áhrif umbunarkerfa á þroska barna og unglinga. Gossen byggir aðferðina jafnframt á rannsóknum á fornum aðferðum fumbyggja Ameríku við barnauppeldi og uppbyggingu brotamanna.


Stefnan felur í sér að ýta undir ábyrgðarkennd og sjálfstjórn barna og unglinga, auk þess að þjálfa þau í að ræða um tilfinningar sínar og átta sig á þörfum sínum. Börnunum/unglingunum eru kenndar aðferðir við sjálfstjórn og sjálfsaga sem og hvernig maður lærir af mistökum sínum. Hugmyndafræði Uppeldi til ábyrgðar byggir á því að einstaklingurinn geti tekið sjálfstæðar, siðferðilegar ákvarðarnir varðandi eigin hegðun út frá þeim lífsgildum sem hann hefur. Þegar hann er laus undan skömm, hótunum, sektarkennd eða loforðum um umbun. Þá styðja vinnuaðferðirnar starfsfólk í skólum til að mynda sér skýra stefnu í samskiptum og meðferð á agamálum. Hugmyndafræðin hefur því áhrif á marga þætti skólastarfsins svo sem kennsluhætti, stjórnunarhætti, áherslur í lífsleiknikennslu og ekki síst á meðferð agamála. Með þessu verður því breyting á kenniviðmiðum skólasamfélagsins varðandi samskipti og aga.

Diane Gossen

Upphafsmaður stefnunar

Flóaskóli hóf innileiðingu á Uppeldi til ábyrgðar vorið 2014. Áður hafði allt starfsfólk skólans setið námskeiðin Restitution I og II. Í lok skólaársins 2014 - 2015 var Sigrún Helgadóttir gerð að verkefnastjóra yfir innleiðingu stefnunnar í skólanum í eitt ár. Skólaárið 2016 - 2017 er starfrækt uppbyggingarteymi sem heldur utan um áframhaldandi innleiðingu.