Starfsemi skólans frá stofnun hans og helstu atriði í þróun skólans frá upphafi

Flóaskóli tók til starfa haustið 2004 við sameiningu þriggja grunnskóla í þremur sveitarfélögum: Gaulverjaskóla í Gaulverjabæjarhreppi, Villingaholtsskóla í Villingaholtshreppi og Þingborgarskóla í Hraungerðishreppi. Flóaskóli er rekinn af sveitarfélaginu Flóahreppi í Árnessýslu og þjónar íbúum hans. Í byrjun var skólinn ætlaður nemendum í 1.-7. bekk en haustið 2009 hófu nemendur í 8. bekk nám við skólann og vorið 2012 var fyrsti 10. bekkurinn útskrifaður frá skólanum.

Almenn markmið fyrir starfið í Flóaskóla voru mótuð vorið 2004 af undirbúningsnefnd um stofnun skólans og í nánu samstarfi við fólkið í samfélaginu.  Þessi markmið eru að miklu leyti enn í gildi en samkvæmt þeim eru væntingar að loknu námi í Flóaskóla:

  1. Að barnið sé tilbúið til að mæta því vali sem það stendur frammi fyrir og komi vel undirbúið í nýjan skóla.

  2. Að barnið þekki getu sína, bóklega, verklega og félagslega og geti unnið sjálfstætt og af samviskusemi til árangurs.

  3. Að barnið hafi þekkingu á því sem nálægt er svo og á alþjóðasamfélaginu og kunni að leita sér þekkingar.

  4. Að barnið þori að tjá sig og standa á sínu.

  5. Að barnið sé jákvætt, hafi ábyrgðartilfinningu og beri virðingu fyrir náunganum og umhverfinu.

 

Skólinn á að skapa sér sérstöðu og vera svo öflugur og fýsilegur að hann verði eftirsóknarverður fyrir foreldra annarra barna en þeirra sem í hann eiga að ganga.

Góður skóli er lykillinn að vexti byggðar í Flóanum!

 

Skólastarfið á að snúast um að koma nemendum til aukins þroska í öruggu og hvetjandi umhverfi.  Nemendur eiga að geta nýtt skólaumhverfið til að afla sér þekkingar og færni.  Öllum nemendum á að líða vel í skólanum og þeir eiga að hafa tækifæri til að auka samstarfshæfni sína og víðsýni.  Þannig geta þeir á farsælan hátt tekist á við lífið í síbreytilegu samfélagi nútímans og lagt sitt af mörkum til að bæta það.  Skólinn þarf einnig, sem hjarta samfélagsins, að þjóna íbúum þess með því að leggja sitt af mörkum í alls kyns viðburðum tengdum listum, íþróttum og menningu.  Skólinn þarf að eiga gott samstarf við íbúana og ýta undir framþróun í samfélaginu.