Hagnýtar upplýsingar um skólastarfið 

 

Skrifstofa skólans opnar kl 7:30 alla virka daga og hægt er að hringja inn forföll nemenda frá kl 7:45 – 8:00 í síma 486-3460. Einnig er hægt að skrá veikindi nemenda í Mentor.

 

Skóladagurinn í Flóaskóla hefst klukkan 8:10 alla daga og lýkur kl 14:00.  Nemendur fá ávexti áður en farið er í frímínútur kl. 9:50. Nemendur í 1. – 4. bekk eru í gagn og gaman tímum inn á milli tíma einhverja daga þar sem farið er meðal annars í leiki, útiveru og íþróttastarf. Gagn og gaman er unnið í samstarfi við ungmennafélagið Þjótanda. Nemendur fá einar frímínútur fyrir hádegi og fara þá nemendur í 1. -7. bekk í útiveru. Nemendur í 8. – 10. bekk geta valið hvort þeir eru inni eða úti í sínum frítíma. Í hádeginu snæða nemendur hádegismat í matsal skólans sem er í Þjórsárveri. Borðað er í þremur hlutum og byrja þau sem yngst eru og svo koll af kolli. Nemendum í 1. – 4. bekk stendur til boða að fara í skólavistun að loknum skóladegi alla daga til kl 16:30.

Starfsstaðir

Almenn kennsla, verk og listnám fer fram í húskynnum skólans í Villingaholti. Íþróttir eru kenndar í Þingborg og sund er kennt á Laugarlandi í holtum og í sundlauginni á Hellu. Skólinn hefur einnig útivæði til notkunar til kennslu. Kennsla fer einnig fram í vettvangsferðum og starfskynningum í grendarsamfélaginu.

Morgunmatur

Öllum nemendum skólans er boðið upp á morgunverð í heimilisfræðistofu skólans. Nemendum stendur til boða hafragrautur með rúsínum og kanil, lýsi og íslenskt grænmeti þrjá daga.

Skólaárið 2016 – 2017 verður fyrsta skólaárið sem morgunmatur verður í boði í Flóaskóla.

Frímínútur

Nemendur í 1.-7. bekk fara út í öllum frímínútum og er því ætlast til að þeir séu klæddir eftir veðri hverju sinni. Nemendur í 8.- 10. bekk hafa val um það hvort þeir fara út í frímínútum eða séu inni.  Því vali fylgir mikil ábyrgð varðandi umgengni og hegðun og áskilur skólinn sér rétt til að breyta þessu fyrirkomulagi ef þess gerist þörf.  Yngri nemendur, sem þurfa að vera inni í frímínútum einhverra hluta vegna, skulu koma með skriflega beiðni um það frá forsjáraðila sínum til umsjónarkennara.  Starfsmenn skólans sinna gæslu í öllum frímínútum.  Ef veður hamlar útivist eru það sömu aðilar sem sinna gæslu innan dyra.

Mataraðstaða nemenda

Til þess að vinnudagur skólabarna verði árangursríkur og ánægjulegur er mikilvægt að nemendur fái nægan nætursvefn og neyti hollrar fæðu.  Í haust verður gerð tilraun með nýtt fyrirkomulag í morgunhressingunni, en hingað til hafa nemendur fengið ávexti fyrir tíufrímínútur. Nýja fyrirkomulagið felur í sér að nemendum verður boðið upp á hafragraut, lýsi og íslenskt grænmeti í stað ávaxta a.m.k tvo daga í viku.

Hádegishlé telur 40 mínútur, 20 mínútur í matsal og 20 mínútur í frímínútur.  Nemendur matast í sal í félagsheimilinu Þjórsárveri og sinna kennarar eða stuðningsfulltrúar gæslu í matsal.  Í matmálstímum er lögð áhersla á góða siði, kurteisi og rólegheit og að nemendur aðstoði við að bera matinn fram og ganga frá.

Forsjáraðilar nemenda greiða mánaðarlegt gjald vegna mötuneytis.  Gjaldið stendur undir kostnaði vegna hráefniskaupa við mötuneytið.  Flóahreppur sér um annan rekstur mötuneytis.

Skólavistun

Skólavistun er lengd viðvera nemenda í 1.-4. bekk í skólanum eftir að hefðbundnum skóladegi lýkur.  Boðið er upp á skólavistun alla virka daga sem skólinn er opinn svo framarlega sem þörf sé á þjónustunni.  Opið er í skólavistun frá því að kennslu lýkur og til kl. 16:30.  Í skólavistun fá nemendur síðdegishressingu, tíma til leikja, föndurs, lesturs og annarrar tómstundaiðju.  Foreldrar þurfa að skrá börn sín í skólavistun á skrifstofu skólans en gjöld eru innheimt mánaðarlega með greiðsluseðli.

Heimavinna

Heimavinna nemenda er reglulegur hluti af námi hvers og eins.  Mörgum foreldrum finnst heimanám nauðsynlegt þar sem það tengir vinnu nemenda í skólanum við heimilin og aðstoðar forsjáraðila við að fylgjast með námi barna sinna.  Heimavinna nemenda er skráð í Mentor og er það á ábyrgð forsjáraðila og nemenda að nálgast þær upplýsingar.

Forföll og fjarvistir nemenda

Lög kveða á um að foreldrar nemenda sjái um að þeir sæki skóla hvern dag.  Óheimilar fjarvistir og seinkomur hafa áhrif á skólagöngu hvers og eins nemanda.  Sé um veikindi að ræða þarf að tilkynna þau á skrifstofu skólans að morgni hvers veikindadags.  Leyfi umfram 2 daga þarf að sækja um skriflega á þar til gerðum eyðublöðum og vera samþykkt af skólastjóra.  Leyfi í 1-2 daga má sækja til umsjónarkennara.  Séu leyfi og veikindi ekki tilkynnt er litið svo á að um óheimilar fjarvistir sé að ræða.  Foreldrar bera ábyrgð á námi barna sinna í umbeðnum leyfum og verða að ráðfæra sig við umsjónarkennara varðandi sérstök verkefni eða heimavinnu. 

Samræmd próf

Nemendur í 4. og 7. bekk taka samræmd próf í íslensku og stærðfræði á hverju hausti.  Nemendur í 9 og 10. bekk taka að auki samræmt próf í ensku. Samræmd próf í grunnskólum verða lögð fyrir með rafrænum hætti frá og með haustinu 2016. Þá verða þau samræmdu próf sem undanfarin ár hafa verið haldin að hausti í tíunda bekk færð til vors í níunda bekk.

Tilfærsla samræmdu prófanna hefur það í för með sér að ekkert próf verður haldið í tíunda bekk næsta haust. Þeir nemendur sem verða í tíunda bekk á næsta skólaári munu í staðinn þreyta próf vorið 2017, á sama tíma og níundu bekkingar.

Samhliða þessum breytingum stendur til að gera könnunarprófin hæfnimiðaðri í takt við áherslur í aðalnámskrá grunnskóla frá 2013. Áfram verða tvö könnunarpróf í fjórða og sjöunda bekk, í íslensku og stærðfræði. Í tíunda bekk verður hæfni í íslensku, stærðfræði og ensku metin. Nánari upplýsingar koma frá Námsmatsstofnun og eru veittar viðkomandi nemendum og foreldrum fyrir prófin.

Danskennsla

Undanfarin skólaár hafa nemendur fengið danskennslu í námskeiðsformi frá Dansskóla Jóns Péturs og Köru.  Dansnámskeiðin hafa staðið í eina viku að hausti og lokið með sýningu fyrir fjölskyldur nemenda.  Á yfirstandandi skólaári er reiknað með að danskennsla verði með svipuðu sniði en dagsetning verður auglýst síðar.

Heimsóknir frá Krakkaborg

Elsti árgangur leikskólans Krakkaborgar kemur reglulega í heimsókn í Flóaskóla yfir skólaárið. Er þetta liður í samstarfsáætlun Krakkaborgar og Flóaskóla og hefur það markmið að búa börnin sem best undir færslu milli skólastiga. Umsjónarkennari í 1. bekk sér að mestu um samskipti við starfsmann frá Krakkaborg. Samstarfsáætlunin verður endurskoðuð í byrjun vetrar.

Sýningar á verkum nemenda

List- og verkgreinakennarar sjá um að setja upp sýningu á verkum nemenda sem settar eru upp í tengslum við viðtalsdaga. Þ.e. á frammistöðuviðtalsdegi og námsmatsviðtalsdögum.

Sýningarnar eru fyrst og fremst settar upp á göngum skólans og eru foreldrar sérstaklega hvattir til að ganga um skólann á þessum dögum og skoða verk nemenda. Ekki er ætlast til að foreldrar taki niður verk barna sinna á sýningunni.

Skólablaðið

Nemendur í 7. bekk gefa út skólablað ár hvert, ýmist að hausti eða vori og er það hluti af fjáröflun þeirra vegna vorferðalags.

Valgreinar í 8.–10. bekk

Þegar nemandi sest í ungilngadeild Flóaskóla verða talsverðar breytingar á tilhögun
náms frá því sem verið hefur. Það sem einkennir námið í þessum bekkjum er aukið námsval sem gerir nemendum kleift að velja sér námsgreinar og lotur við hæfi eftir áhuga og í samræmi við framtíðarmarkmið. Valgreinar í 8.-10. bekk eru ýmist verklegar eða bóklegar og vonandi finna flestir nemendur eitthvað við sitt hæfi. Sérstaklega skal á það bent að nemendur geta fengið íþróttaiðkun eða nám, t.d. við tónlistarskóla eða myndlistarskóla metið sem nemur tveimur kennslustundum á viku.

Nemendur í 8.-10. bekk fá 280 mínútur á viku í valgreinum. Nemendur í 8. Bekk eru í 80 mínútur í bundnu vali í starfskynningum. Skólastjórnendur skipuleggja valgreinar næstkomandi skólaárs að vori að nokkru leyti en loka ákvörðun vals er unnið í samráði við nemendur á haustin. Framboð valgreina byggist að miklu leyti á hópastærðum, kennurum og aðstöðu.

Nemendum Í 8. – 10. bekk í Flóaskóla stendur til boða svokallaðar „lotur“  tvisvar sinnum í viku. Nánari útskýringar á lotunámi er að finna á næstu blaðsíðu.

Nemendum fara svo einnig á smiðjuhelgar þar sem boðið er uppá eina helgi á önn (í staðin fyrir miðvikudagstímann sem áður var). Helgarnar verða með því sniði að nemendur fá að velja sér eitthvað námskeið sem þau vilja fá eina helgi. Á síðasta skólaári var fyrsta árið sem farið var í smiðjuhelgar og gafst það mjög vel og nemendur voru almennt ánægðir með námið sem fram fór á helgunum. Óskað verður eftir foreldrasamstarfi hvað varðar gæslu á smiðjuhelgum. Nemendur fá kvöldmat á föstudegi og laugardegi en taka með sér nesti til þess að snæða yfir daginn. 

Foreldrar fá í september kynningu á smiðjuhelgum sem koma í stað fyrir hefðbundið val á miðvikudögum.  Tilkynning um hvernig næsta valtímabili verður háttað kemur alltaf tveim vikum áður en tímabil hefst.
 

Námsval Flóaskóla skiptist í fjóra þætti:

Lotur                          Smiðjur                      Stofu val        annað nám

 

  1. Lotur. Hluti valsins fléttast inn í lotunám sem tilgreint og lýst er nánar hér að neðan.

  2. Smiðjur. Næst velja nemendur tvær smiðjur sem eru kenndar í tveimur helgarlotum, eina smiðjuhelgi fyrir áramót og aðra eftir áramót.

  3. Bóklegt val. Nemendur geta valið sér þrjár mismunandi stofur. Ein tungumálastofa (enska og danska eða Þýska), ein íslenskustofa og ein stærðfræðistofa. Nemendur þurfa ekki að skrá sig í viðkomandi val og geta valið sér stofu í hvert sinn. Stofuval er einu sinni í viku einn tíma í senn. Nemendur geta því valið að vera í íslensku allan veturinn ef áhugi þeirra er til þess eða geta farið á milli stofa eins og hentar þeim best, þó er ekki hægt að flakka á milli stofa í miðjum tíma. Mikilvægt er að nemendur átti sig á því að þau verða alltaf að mæta í einhverja stofu. 

  4. Annað nám. Þeir nemendur sem stunda annað nám samhliða skólanum s.s. tónlistar– eða íþróttanám geta fengið það metið sem valgrein. Skila þarf inn til skólans staðfestingu á náminu. Eyðublöð má nálgast hjá stjórnendum og á heimasíðu skólans undir eyðublöð.

 

Lotunám í verk-og listgreinum, vali, upplýsingamennt og hreyfingu.

Námið er ætlað nemendum 6.-10. bekkjar.  Hver nemandi fær valblað í byrjun hverrar lotu þar sem hann velur sér grein. Nemendur verða einnig að velja tvær greinar til vara.  Ef nemandi fær ekki sitt fyrsta val þá gengur hann fyrir í næsta valhring.  Nemandi getur ekki verið alltaf í sömu grein og í hverri lotu er alltaf eitt sérstakt verkefni tekið fyrir.  Stærri verkefni eins og Legokeppnin og Skólahreysti eru inni í þessum lotum og þau munu taka yfir a.m.k. tvö tímabil.  Hér á eftir kemur listi yfir þá kennara sem standa að þessu námi og hugmyndir um það sem verður í boði en það getur breyst og einnig er nemendum frjálst að koma með hugmyndir.  Óhefðbundin verkefni eru stundum í boði. Loturnar eru u.þ.b. 4 vikur og við vonum að þetta fyrirkomulag verði til þess að hver nemandi geti notað hæfileika sína og unnið vel. Tekið verður tillit til aldurs og samsetningu nemenda þegar raðað verður í hópa.  Einkunn er gefin fyrir hverja lotu og meðaltal af þeim gildir til lokaeinkunnar á haust- og vorönn.