Þann 20. nóvember árið 1989 var Barnasáttmálinn samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Með sáttmálanum sem var lögfestur á Alþingi árið 2013 var gríðarlega mikilvægt skref tekið til að tryggja með lögum réttindi barna. Árið 2016 var samþykkt á Alþingi að 20. nóvember ár hvert skuli helgaður fræðslu um mannréttindi barna. Stjórnvöld eru sammála um að vinna skuli að því að gera 20. nóvember hærra undir höfði og nýta daginn enn frekar við fræðslu og vitundarvakningu um réttindi barna.
Barnasáttmálinn er útbreiddasti mannréttindasamningur heims og kveður á um réttindi sem öll börn eiga að njóta, án mismununar. Til þess að réttindin nýtist öllum börnum er mjög mikilvægt að þau þekki réttindi sín og að samfélagið allt þekki í hverju þau felast og hvaða skyldur sáttmálinn leggur á herðar samfélagsins
Dagur mannréttinda barna árið 2024 er tileinkaður börnum sem hafa þurft að yfirgefa heimili sitt.
Á heimasíðu Barnaheilla, Dagur mannréttinda barna – Barnaheill, er stutt mundband sem hefur verið útbúið þar sem rætt er við börn frá Grindavík, Úkraínu og Palestínu sem öll eiga það sameiginlegt að hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Auk þeirra er rætt við sérfræðing í fjölmenningarmálum.
Markmiðið með myndbandinu er að vekja athygli á því áfalli sem það er að missa heimili sitt og mikilvægi þess að hlúa vel að þessum hópi barna. Það gefur okkur innsýn í hvernig börnunum líður, hvers þau sakna og hverjir framtíðardraumar þeirra eru.
Hvernig myndi þér líða ef þú þyrftir að yfirgefa heimilið þitt í flýti?
Comments