Smá fróðleikur !
Bóndadagur nefnist fyrsti dagur Þorra. Takmarkaðar heimildir eru til um þennan dag og siði honum tengdum og því erfitt að ráða í aldur hans og hverju hann tengdist. Af þeim fáu heimildum sem til eru þá er þó ljóst af frásögnum af siðum honum tengdum að hér hafi verið um alþýðutyllidag en ekki hátíðisdag að ræða og því alls óvíst hvort hann hafi verið mjög útbreiddur eða hvaða tilstand hafi tíðkast þar sem hann var haldinn.
Svo virðist sem það hafi verið siður að taka rausnarlega á móti Þorra. Mikilvægt var að veita vel í mat, drykk og klæðum, en væri ekki tekið nógu vel á móti honum var næsta víst að hann myndi hefna þess grimmilega. Misjafnt var eftir landssvæðum, hvort móttaka Þorra væri helst í höndum karla eða kvenna, sums staðar áttu bændur t.d. að taka til mat á þessum degi, sem annars hefur verið starf kvenna, annarsstaðar átti húsfreyja að stjana við húsbóndann sem var þá táknmynd Þorra. En allsstaðar, átti þó einnig að gera vel við bændur og var almennt lagt meira í mat og drykk heldur en aðra daga á þessum árstíma. Ein frásögn um móttöku þorra er á þessa leið:
„ Þess vegna var það skylda bænda "að fagna þorra" eða "bjóða honum í garð" með því að þeir áttu að fara fyrstir á fætur allra manna á bænum þann morgun sem þorri gekk í garð. Áttu þeir að fara ofan og út í skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra brókarskálmina og láta hina svo lafa eða draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum allan bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkominn í garð eða til húsa. Síðan áttu þeir að halda öðrum bændum úr byggðarlaginu veislu fyrsta þorradag; þetta hét "að fagna þorra".
Þorrinn endar svo á þorraþræl, sem er viss fegins-dagur þar sem harðasti mánuður vetrarins er þar með búinn.

Comentários