Jafnréttis- og mannréttindaáætlun Flóaskóla 2015 - 2018

Áætlunina skal endurskoða í heild sinni skólaárið 2018, áætlunina má endurskoða í heild sinni eða að hluta til eins oft og þurfa þykir.

 

 

Inngangur

Í 18. gr. laga nr.10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, ber öllum fyrirtækjum og stofnunum sem hafa fleiri en 25 starfsmenn að setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína.  Markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.  Allir einstaklingar skulu eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni.

Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 og í Aðalnámskrá grunnskóla er víða fjallað um jafnrétti kynjanna og mannréttindi. Þar er áherslan á að bæði kynin hafi jafnan rétt til náms, þátttöku í samfélaginu, fjölskyldu- og atvinnulífi. Markmið námsins og kennslunnar og starfshættir skólans skuli vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun m.a. vegna uppruna, kyns, kynhneigðar, búsetu stéttar og trúarbragða.

Í jafnréttisáætlun Flóahrepps kemur fram að í upphafi hvers kjörtímabils skulu stofnanir og nefndir sveitafélagsins gera starfsáætlun í jafnréttismálum. Þar komi fram hvernig stofnanir/nefndir hyggjast vinna á grundvelli jafnréttisáætlunarinnar og hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar í þeim tilgangi.

Orðið jafnrétti hefur yfir sér blæ réttlætis þar sem allir sitja við sama borð.  Allt skólastarf skal vera í anda jafnréttis.  Jafnrétti á að vera samofið leik og starfi nemenda og starfsfólks og þurfa allir að geta starfað í þeirri vissu að ekkert hamli þeirra starfsánægju.

Jafnréttisáætlun Flóaskóla tekur til annars vegar nemenda og hins vegar starfsmanna. Helsti áhersluþátturinn í skólastarfinu er að nemendur, kennarar og annað starfsfólk nái hámarksárangri og skólastarfið miði að því að styrkja og efla hvern og einn til framfara og þroska.  Mikilvægt er að starfið mótist af metnaði og hvatningu til sjálfstæðra verka og aukinnar víðsýni, þar sem hver og einn fær notið sín á eigin forsendum og fái tækifæri á að vera besta útgáfan af sjálfum sér. 

Samskipti einstaklinga eiga að grundvallast á gagnkvæmri virðingu, kurteisi og tillitssemi, sem er forsenda þess að hverjum og einum líði vel.  Gagnkvæmt traust og jákvæð og uppbyggileg samskipti móta framar öðru góðan starfsanda.   

Skólastarf í anda jafnréttis tekur mið af mismunandi hæfileikum fólks, Því er haft að leiðarljósi í skólastarfi Flóaskóla að tækifæri nemenda og starfsfólks byggi fyrst og fremst á hæfileikum og færni.

Í Flóaskóla á sér reglulega stað innra mat á skólastarfinu, hvort sem um er að ræða starfsmannasamtöl, starfsmannakannanir og kannanir meðal nemenda og foreldra. Með þessum könnunum gefst gott tækifæri til að kanna og leggja mat á stöðu jafnréttismála í skólanum. 

Jafnréttisáætlun skólans er kynnt fyrir öllum þeim sem að skólastarfinu koma, hún er kynnt fyrir starfsfólki, skólaráði, foreldraráði, fræðslunefnd Flóahrepps og nemendafélagi skólans.

Mikilvægt er að nemendur og starfsfólk skólans hafi jafnan rétt til að hafa áhrif á skólastarfið, stefnumótun og ákvarðanatöku og skal reynt að tryggja það með sem bestum hætti.   Til grundvallar stefnunni er vísað til þess að í Stjórnarskrá Íslands er varinn réttur kvenna og karla og einnig í mörgum mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur undirritað. 

Starfsfólk Flóaskóla ber að veita börnum og unglingum hvatningu og tækifæri til að rækta hæfileika sína og persónuþroska án þess að hefðbundnar kynjaímyndir hafi þar áhrif.  Skólastjórnendur Flóaskóla skulu leitast við að styrkja jákvæða kynímynd stúlkna og drengja og vinna sérstaklega gegn áhrifum klámvæðingar meðal unglinga.

Sérstök ábyrgð er lögð á herðar skólastjórnenda.  Þeir eiga að leggja áherslu á að allt skólastarf miði að því að undirbúa nemendur af báðum kynjum fyrir einkalíf, fjölskyldulíf, félags- og atvinnulíf.  Einnig að námsefni mismuni ekki kynjum og í náms- og starfsfræðslu verði lögð áhersla á að kynna báðum kynjum störf sem hingað til hafa verið talin hefðbundin kvenna- eða karlastörf.

 

Nemendur

Lögð er áhersla á að nemendum lærist að þekkja og tjá eigin tilfinningar. Þeir eiga jafnframt að kunna að virða tilfinningar annarra óháð uppruna, kyni, búsetu, trú eða fötlun.

  • Kennsluaðferðir eða námsgögn mega á engan hátt mismuna nemendum enda eiga allir nemendur jafnan rétt til náms. 

  • Öll vinna nemenda skal vera í anda jafnréttis þar sem lögð er sérstök áhersla á að nemendur rækti með sér samkennd, samhygð og virðingu fyrir skoðunum og lífsgildum annarra. Nemendur eiga að hafa jafnrétti að leiðarljósi í öllum samskiptum.

  • Vinna þarf gegn stöðluðum ímyndum kynjanna meðal annars með markvissum heimsóknum foreldra í skóla þar sem þeir kynna mismunandi störf og starfsvettvang sinn. 

  • Vinna skal með gildismat og fordóma í gegnum almennar umræður. 

  • Kynna skal sérstaklega fyrir stúlkum nám og störf í  tækni- og iðngreinum og fyrir drengjum hefðbundin störf sem flokkast til uppeldis- og umönnunarstarfa.

Reglulega eru lagðar fyrir spurningar fyrir nemendur í 6. - 10. bekk spurningar um t.d. líðan, sjálfsmynd, áform og virkni. Komi í ljós verulegur munur á svörum kynjanna er unnið með þær niðurstöður og kannað hvað valdi og hvaða leiðir eru til úrbóta.  Þetta sjálfsmat nemenda má einnig nota sem innlegg í nemenda- og foreldrasamtöl.  Einnig er lögð könnun fyrir yngri nemendur þar sem sömu þættir eru skoðaðir.  Það er lykilatriði að vinna markvist með jafnrétti í samfélagsfræðikennslu í skólanum

Mikilvægt er að nemendur fái fræðslu um kynferðislega áreitni og viti hvernig bregðast skuli við og hvert á að leita búi þeir yfir vitneskju um slíkt. Þá ber starfsmönnum skólans að vera vakandi fyrir einkennum í fari nemenda sem bent gætu til kynferðislegrar áreitni og upplýsa stjórnendur um það. 

Allar námsgreinar tengjast beint eða óbeint jafnrétti. Sérstaklega er nauðsynlegt að huga að þeim greinum sem tengjast öðru kyninu fremur en hinu, sbr. starfsval síðar á lífsleiðinni.  Kennarar þurfa að beita fjölbreyttum kennsluháttum þannig að nemendur fái kennslu við hæfi og ólík reynsla og gildismat fái notið sín.  Haft er að leiðarljósi í skólastarfinu að þátttaka kynjanna í sem flestum þáttum starfsins sé sem jöfnust.  

Rík áhersla er lögð á gagnkvæma og trausta samvinnu við heimili nemenda, tónlistarskóla, íþróttafélög og félagsmiðstöð.  Í upphafi skólaárs, að hausti, eru haldnir kynningarfundir í skólanum fyrir forráðamenn nemenda. Þar er skólastarfið kynnt, m.a. sá hluti jafnréttisáætlunar skólans sem snýr að nemendum.

 

Stjórnendur

Stjórnendur bera ábyrgð á því að kynferðisleg áreitni viðgangist ekki í skólanum og meðferð slíkra mála er í þeirra höndum.

Í anda jafnréttislaga eiga stjórnendur að leitast við að gera nauðsynlegar ráðstafanir þannig að starfsmenn, jafnt karlar sem konur, geti samræmt sem best starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu.

Umræðu um jafnréttisáætlunina, bæði það sem snýr að starfsmönnum og nemendum, þarf að taka upp árlega á starfsmannafundum.

Stjórnendur skulu leitast við að verslaðar séu vörur sem merktar eru með fair trade vottun eins og kostur er. Fairtrade vinnur að því marki að meira jafnræði ríki á alþjóðlegum viðskiptum. Sjá má merkið aðallega á landbúnaðarvörum eins og bönunum, kaffi, sykri, kakó og te Fyrir nokkrum árum bættust við íþróttaboltar til að vinna gegn barnaþrælkun í fótboltaiðnaðinum í Pakistan og alltaf bætast fleiri vörur í hópinn.

 

Starfsmenn

Starfsmenn skólans njóta sömu möguleika til endurmenntunar og starfsþjálfunar óháð uppruna, kyni, búsetu, trú eða fötlun.  Þeir búa einnig við jafna möguleika til  stöðuhækkana, stöðubreytinga og breytinga á vinnuaðstæðum. Launajafnrétti er í skólanum fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.  Laus störf við skólann standa opin jafnt konum og körlum.

Öllum starfsmönnum er ljóst að kynferðisleg áreitni verður aldrei liðin í skólanum.  Starfsmenn eiga alls ekki að sætta sig við kynferðislega eða kynbundna áreitni, en áreitni getur birst í mörgum myndum s.s. í orðum eða látbragði. 

Allir kennarar skólans verða að skoða og meta allt námsefni út frá jafnréttissjónarmiði.  Það þarf að hafa að leiðarljósi að vinna með námsefni / kennslugögn sem byggja á jafnréttishugmyndum. Kennarar og starfsfólk skólans skulu ávallt gæta þess að gefa aldrei í skyn að ákveðnir þættir eigi frekar við um eitt kynið fremur en hitt.

 

Framkvæmd, eftirfylgni og endurskoðun

Mikilvægt er að fram fari faglegt og reglubundið mat á áhrifum jafnréttisáætlunar og jafnréttisstarfs í skólanum. Niðurstöður matsins eru kynntar reglulega fyrir nemendum, starfsfólki og forráðamönnum. Niðurstöðurnar má einnig nálgast á heimasíðu skólans.

Til að jafnréttisáætlun skili árangri er nauðsynlegt að hafa skýra mælikvarða í tengslum við þau markmið sem koma fram í áætluninni. Þau matstæki sem lögð eru til grundvallar eru starfsmannasamtöl, viðhorfskannanir meðal nemenda, starfsmanna og forráðamanna.

 

Jafnréttisáætlun Flóaskóla byggir á:

Jafnréttisáætlun Flóahrepps

Lögum um grunnskóla nr. 91/2008

Lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008

Aðalnámskrá grunnskóla.

Skólastefnu Flóahrepps

Vefsíðu Fairtrade Labeling Organizations International

Um gerð jafnréttisáætlana fyrirtækja og stofnana.

Útg. Jafnréttisstofa. Sjá heimasíðu Jafnréttisstofu; jafnretti.is.

Jafnréttisáætlanir: Aðferð til árangurs.

Útg. Jafnréttisstofa.  Sjá heimasíðu Jafnréttisstofu; jafnretti.is.