SKÓLAAKSTUR 

Skólaakstur er á hverju vori skipulagður í samvinnu skólastjórnenda, fræðslunefndar og sveitarstjóra vegna komandi skólaárs.  Reynt er að bjóða öllum íbúum góða þjónustu, en gæta þess jafnframt að sem mestri hagkvæmni sé náð í akstrinum.

Langflestir nemendur skólans eru daglegir farþegar í skólabíl.  Mikilvægt er að öryggi nemenda sé tryggt í og við bílana og að nemendur sýni ábyrgð í allri umgengni við þá.  Þegar nemendur yfirgefa skólabíl, við skólann eða við heimili sitt, skulu þeir ganga fram fyrir bifreiðina og að húsinu.  Bifreiðin fer ekki af stað fyrr en allir nemendur eru komnir frá farartækinu og í átt að húsinu.  Fari nemendur hins vegar úr skólabíl í þéttbýli, skulu þeir bíða í vegarkantinum þar til skólabíllinn hefur farið af stað og nemandi hefur fullt útsýni til allra átta.  Nemendur í  1.-2. bekk hafa sessu til að sitja á til að auka öryggi þeirra í bílunum.

Allir skólabílar á vegum Flóahrepps eru merktir sem slíkir.  Fræðslunefnd og skólastjóri hafa farið fram á það við bílstjórana að þeir skili til skólastjóra öllum tilskyldum leyfum og pappírum sem snerta aksturinn, svo sem afriti af ökuleyfum, tryggingum og skoðunarvottorðum. 

Skólabílstjórar eiga í góðu samstarfi við starfsfólk skólans og láta skólastjóra reglulega vita af því hvernig aksturinn gengur.  Skólabílstjórar eru bundnir trúnaði við farþega sína.  Bílstjórar sjá til þess að öryggisbúnaður bifreiðar sé ávallt í lagi.  Þeir leitast við að halda bifreiðum snyrtilegum og koma fram við alla farþega af kurteisi og virðingu.  Reykingar eru ekki leyfðar í bifreiðum sem notaðar eru til skólaaksturs enda getur hlotist heilsutjón og óþægindi fyrir nemendur af þeim.  Nemendum er kynnt sú almenna regla að í skólabílum gilda sömu umgengnis- og samskiptareglur og í skólanum.  Foreldrar eru kallaðir til ábyrgðar ef börn þeirra virða ekki settar reglur.

Nemendur skulu ávallt vera tilbúnir þegar skólabíll sækir þá að morgni þannig að ekki hljótist af bið.  Skólabílstjórar þurfa að halda tímamörk og leyfist ekki að bíða eftir nemendum við heimili þeirra þannig að seinkun, sem hefur áhrif á skólabyrjun, verði á leiðum bílanna.  Séu nemendur ekki tilbúnir að morgni verða forsjáraðilar þeirra að sjá um að aka þeim í skólann.

 


Foreldrar eru beðnir um að hringja í skólabílstjóra að morgni ef forföll verða hjá nemendum. Einnig þarf að hafa samband við bílstjóra ef nemandi kemur ekki heim eða vill komast með öðrum skólabíl en sínum venjulega.

Brynjar. 895-8438

Gummi. 892-3759

Siggi Sig. 862-0047

Siggi Emils. 893-4254

Siggi Ó 894-1027